Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Uppáhalds árstíðin mín er...

Nú er ég búin að uppgötva nýjann tíma sem ég get laumast til að skrifa inn á bloggið mitt. Ha! Morgunstund gefur gull í mund. En hvað þetta er nú yndislegur tími, þá er ég ekki bara að tala um morgnana heldur þessi árstími. Sumarið er ein af fjórum uppáhalds árstíðum mínum. Hinar eru vorið, haustið og veturinn. Mér finnst það sóun ef maður getur ekki notið þeirrar árstíðar sem er hverju sinni. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað ég er nísk. Ég tími ekki að eiða tímanum í að vera að bíða eftir einhverju. Auðvitað er tilhlökkunin góð tilfinning en ég vil ekki óska þess að þessi eða hinn tíminn sé komin, ég vil njóta biðarinnar líka. Tíminn er svo fljótur að líða, maður verður að grípa hvert andartak og njóta þess. Líka þegar manni leiðist. Það er hægt að njóta þess þegar manni leiðist. Og þá hættir það sem manni fannst svo leiðinlegt að angra mann svo mikið.

Adrenalín

Það getur greinilega liðið langur tími milli færslna hjá mér. Það er eitthvað sem ég gerði mér alveg grein fyrir í upphafi. Ef ég ætla að hafa þetta algjört leyni leyni, þá verð ég að bíða eftir réttum aðstæðum. Að vera á réttum stað á réttum tíma og í réttum félagsskap, þ.e.a.s. mínum eigin. Það er svolítið fyndið að vera að laumast svona, minnir á eitthvað meiri háttar leynimakk. Kannski fær pínu spennufíkill útrás fyrir að laumast svona. Ekki það, minni spennufíkil en mig er erfitt að finna. Ég sæki síst af öllu í að fá í magann af spenningi yfir einhverju. Mér finnst ekki gaman að fá í magann. Það er ekki það að ég njóti ekki þess óvænta, ég komst bara að því fyrir ekki löngu að adrenalín fer ekki vel í mig. Satt að segja líður mér bara illa. Tannlæknirinn minn sagði mér að það væri þekkt að sumir þyldu adrenalín verr en aðrir. Og ég er semsagt sumir en ekki aðrir. Í þessu tilfelli a.m.s.k.HappyMér finnst það ágætt. Mér líkar ljómandi vel við mig eins og ég er. Það er ekki allir sem eru það heppnir. Ég meina að líka vel við sjálfan sig. Það líkar náttúrulega öllum vel við mig. Annað er nú ekki hægt.


Gammur

Nú þegar ég gæti látið gamminn geysa um ritvöllinn þá dettur mér ekkert í hug. Ef til vill er þetta bara óvani. Með tímanum lagast þetta ef til vill og ég næ þá að skrifa einhverjar heljar langlokur um allt og ekkert.

Það er ákveðin kúnst að skrifa um allt og ekkert. Það er ekki öllum gefið að geta sett niður langa bálka um eitthvað sem ekkert er. En er ekki allt eitthvað? Getur maðu nokkurn tíma talað eða skrifað um ekkert? Er ekki einhver meining í öllu? Það getur verið að það sé ekki ýkja merkileg meining en ég held að allt hafi einhverja meiningu. Það skipta allir hlutir einhverju máli. Kannski mismiklu máli en það er meining í öllum hlutum. Og þess vegna á maður að reyna að taka eftir og njóta alls, líka þess sem virðist lítið og ómerkilegt.


Dómar

Það heillar mig að geta tjáð mig um það sem ég er að hugsa án þess að nokkur viti af því. En ég veit að allt í kringum mig eru skarpir einstaklingar sem að hafa gaman af því að vera á netinu. Svo að ég ætla að reyna að segja sem mest án þess að gefa til kynna hver ég er. Þannig að ég segi eingöngu frá því sem ég er að hugsa, ekki um fjölskylduna eða vini eða vinnufélaga. Það verður gaman að vita hvernig það gengur.

Núna get ég til dæmis skrifað um ísbjörninn sem var skotinn í gær. En ég veit allsekki hvað mér finnst.  Þegar maður veit ekki allar aðstæður er afskaplega erfitt að dæma. Finnst mér að minnsta kosti.


Frumraun

Þetta er frumraun mín í bloggi. Þetta er mitt einkaleyniblogg, þ.e.a.s. það veit enginn hver ég er. Nema ég. Og það er þá alltaf eitthvað!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband