Það er óhollt....

Þetta er greinilega ekki hluti af mínu daglega ferli að blogga. En þegar rétti tíminn gefst og´mig langar til þá kemur smáfærsla. Eins og til dæmis núna.

Það er komið nýtt ár eins og flestir hafa kannski tekið eftir. Og ég er búin að ákveða að þetta verði gott ár, bæði fyrir mig persónulega eins og fyrir þjóðina í heild. Assgoti er ég góð að geta ákveðið fyrir heila þjóð hvernig árið verður. Svo mikill er máttur minn. Að minnsta kosti held ég að það sé betra að ákveða að allt verði eins og best verði á kosið og takast svo á við það EF svo verður ekki heldur en að mála allt í dökkum litum og vera í bullandi blús og geta kannski ekki tekið því sem verður gott. Það er óhollt að vera svartsýnn. Punktur og basta!


Hið besta mál

Það er greinlegt að ég er ekki að standa mig sem skyldi í blogginu. Og þó, ég er að þessu fyrir mig og ég er sátt. Já ég er sko sátt við mig. Skelfing er það góð tilfinning. Að vera sáttur, er það ekki það sem málið snýst um? Ég er ánægð með margt, stolt af mörgu og sátt við rest. Eins og er man ég ekki eftir neinu sem ég er óænægð með í mínu fari. Þetta er bara hið besta mál. Ekki satt? 

Jólagleði eða jólakvíði?

Alveg er það ótrúlegt hvað það getur liðið langur tími milli færslna. En kannski helgast það af því að ég hef svo sem ekkert mikið að segja. Það er svo sem nóg að gerast í heiminum, ekki vantar það. En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bæta mikið við það sem sagt hefur verið og skrifað.

Nú styttist í jólin og alla þá gleði, ánægju, sorg og kvíða sem þau geta vakið. Skelfing held ég að það hljóti að vera erfitt að kvíða jólunum og sjá svo marga hlakka til. Og svo er ætlast til að allir hlakki til og komist í jólaskap. Og ef þú ert ekki að missa þig af tilhlökkun yfir jólunum þá er eitthvað að þér. Til að fyrirbyggja allann miskilning þá líkar mér mjög vel við jólin og flest allt sem þeim fylgja.


Maður

Það er nú svona með lífið, það er ekki alltaf eins og maður vill að það sé. En þá er bara að spá í hvernig það er og reyna að gera gott úr því sem maður hefur. Og ef maður veit hvað maður vill þá reynir maður að ná því. Stundum þarf að víkja aðeins af leið en ef ég hef augun á takmarkinu þá á þetta alveg að ganga. Ég er að reyna að minnka notkunina á orðinu "maður". Það er alveg ljómandi gott orð en mér hættir til að nota það fulloft.

Vitiði bara hvað!!

Vitiði bara hvað ég gerði í gær! Ég sagði frá blogginu mínu! En.... ég tek það fram að sú sem veit af þessu er alveg einstök persóna. Ég myndi treysta henni fyrir öllu. Og ég get talað við hana um allt milli himins og jarðar. Hún er yndisleg manneskja, falleg, góð og hæfileikarík. Ég hef oft sagt um hana að hún sé eins og gangandi (eða dansandi) hæfileikar holdi klæddir. Hún er listagyðja, syngur, dansar, yrkir, málar og allt með eindæmum vel. Fyrir utan það hvað hún er ofboðslega, ofboðslega góð vinkona.


"Kreppu"knús

Þetta er nú pínu fyndið. Nú geta bloggvinir sent hver öðrum faðmlag. Sem er bara hið besta mál, aldrei of mikið af faðmlögum. En nú á "krepputímum" eiga allir að faðmast og knúsast og kyssast. Ég hef alls ekkert á móti knúsum og kossum, þetta eru frábærar uppfynningar. En að allir knúsist og kyssist núna en ekki í annann tíma, það finnst mér fyndið. Smá spökulegging, get ég núna gengið upp að manni sem mig langar afskaplega mikið að knúsa og kyssa og bara kýlt á það? Og ef einhver er hissa/hneykslaður, get ég þá ekki bara sagt "það er kreppa!" Þá er þetta bara hið besta mál. Bless á meðan, ég farin að finna þennan útvalda einstakling. Heppinn hann, er það ekki?

Þetta er skítt

Eitthvað eru nú færslur stopular hjá mér núna. Ég bara finn ekki hjá mér þörf til að tjá mig mikið. Kannski er það vegna þess að allir virðast þurfa að tjá sig um kreppu, hrun og fleira miður skemmtilegt. Ekki ég. Þetta er skítt en aðrir hafa sagt allt sem ég hef um málið að segja svo að ég segi bara pass á það.

En aftur að öðru og skemmtilegra (finnst mér í það minnsta) Veturinn er kominn í öllu sínu veldi. Snjór og frost. Sem er bara ágætt að morgu leyti. Að vísu verð ég að játa það að ég er stödd þar á landinu sem veturinn er kannski hvað vægastur. Fyrir vestan til að mynda er veturinn meira afgerandi en hér. Hérna eru litlar líkur á snjóflóðum og sjaldan kemur fyrir að nokkuð fari á kaf í snjó nema ef til vill stöku ferðagrill sem gleymst hefur úti á palli. Það er sjaldan harður vetur á höfuðborgarsvæðinu.


(Ó)náttúrhamfarir

Það er ekki hægt að kvarta yfir því að ekkert hafi verið að gerast í íslensku þjóðlífi núna síðustu vikur. Ég vil frekar kvarta yfir því að alltof mikið hafi verið að gerast í heiminum. Ef það hefði komið eldgos eða jarðskjálfti, þá væru þetta nátturhamfarir. En fyrst þetta er ekki náttúran sem veldur þessu eru þetta þá ónáttúruhamfarir? Er ekki blóðugt að þurfa ekki bara að kljást við það sem við lítilsmegandi menn getum engin áhrif haft á eins og veður og bara óbeislaðir kraftar náttúrunnar heldur líka að kljást við hamfarir sem eru afleiðingar græðgi og óráðsíu. En ekki þar fyrir, svona persónulega hef ég komið (ennþá) þokkalega undan þessu. Ég er samt afskaplega ósátt við þann ótta sem mér finnst vera kynnt undir í fjölmiðlum. Útlitið er kannski svart en samt er ástæðulaust að hvetja fólk til að hamstra eins og vitlaust sé.

Einkvæni, fjölkvæni, raðkvæni

Það eru einhverjar dýrategundir þá kannski aðalega fuglar sem velja sér maka fyrir lífstíð. Ég vil ekki vera þannig fugl. Ég er ekki hrifin af því að vera meða sama maka endalaust. Kannski hitti ég ekki rétta makann, kannski er einhver sem ég gæti verið með alla tíð. En þá verður maður kannski alltaf að vera að aðlagast einhverjum og það sem skiptir ekki minna máli, fara fram á að einhver önnur persóna aðlagist mér. Kannski er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni (aumingja kusa) ég er ekkert góð í því að krefjast þess að ég eigi tilverurétt og að minn persónuleiki sé metinn að jöfnu við annara. Sem er synd því ég hef stórkostlegann persónuleika.Smile


Yndislegt líf

Þetta er yndislegt líf. Haustið er komið af alvöru. Hávaðarok og hellirigning. Nú bíð ég eftir haustblíðu, þegar veðrið er bjart og kalt og stillt. Haustlitirnir eru alltaf jafnheillandi. Þvílíkir litir sem náttúran hefur á litapalettunni sinni! Það er svo skrítið hvað peysurnar sem voru svo þykkar og óspennandi í sumar eru heillandi núna. Og það er aldrei jafn spennandi að kúra í sófa með hlýtt teppi og núna. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband